top of page

Óþreyju barn, kom innst í lundinn

2019

Samstarfsverkefni með Hjördísi Grétu Guðmundsdóttur

Listasalur Mosfellsbæjar, Mosfellsbær

Óþreyjan eftir lundinum, óþreyjan eftir heimahögum Huldu. Hún vefur sig um löngunina til að skilja verkin hennar og skilja hana, skáldið sjálft. Í lundinum teygðum við okkur niður í lækjarbotninn og drógum upp litlu spýturnar og sprekið sem eftir lá, komið undan vetri.

Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind) var minnst með Huldulundi árið 1981 af Kvenfélagasambandi Suður Þingeyinga. Lundurinn er staðsettur við bæinn Auðnir í Laxárdal þar sem Hulda ólst upp. Staðurinn er þéttvaxinn gróðri og að honum opnast rautt hlið merkt Huldu lundur.

Sú mynd sem okkur birtist við komuna í lundinn er ekki ósvipuð þeirri sem lýst er í skýrslu frá Fornleifastofnun, „Hvorki tóft né garður eru tiltakanlega fornleg og ekkert gat ég séð inni í lundinum en trjáræktin hefur gerbreytt landslaginu sem þyrfti nákvæmari könnunar við.“ (Orri Vésteinsson, ,,Gröf og dauði: Skýrsla um vettvangrannsóknir 2012 - 2013“ (Reykjavík: Fornleifastofnun Íslands, 2013), 31-32.)

Þrátt fyrir það brautryðjendastarf sem Hulda vann er nafn hennar lítið þekkt meðal okkar kynslóðar, nánast gleymt. Okkur fannst táknrænt að koma í skógarlund helgaðan minningu Huldu sem fáir leggja leið sína um. Staðurinn er eins og tákngervingur gleymskunnar og varð heimsóknin okkur tilefni til sýningar. Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að opna hliðið, opna inn að heimi Huldu.

Þvert í gegnum lundinn streymir lind. Í ljóðinu „Við Lindina” (1909) lýsir Hulda tilfinningunni að leggjast við lækinn og leyfa allri hugsun og rökhyggju að fljóta burt. Lækurinn fer sína leið, sameinast úthöfunum, hann er eins og táknmynd frelsisþrár Huldu.

Sýningin er samtal tveggja ungra listkvenna, við Huldu. Lundurinn birtist í hugleiðingu um fantasíuna sem Hulda orti svo oft um. Óþreyjan hefur tekið sér fótfestu í ákveðinni endursköpun rúmum hundrað árum síðar. Er óþreyjubarnið kannski hún sjálf, sem svo oft var kölluð barn?

Textaverk á sýningu er eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Sýningin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, Listaháskóla Íslands og Norðurþingi. Þakkir fá Héraðsskjalasafni Þingeyinga og Hólmfríði Sigrúnu Benediktsdóttur fyrir aðstoð á öflun upplýsinga og gagna um Huldu.

bottom of page