Upplestur á ljóðum Huldu skáldkonu
2019
Gjörningur
Lengd: 8 klst.
Samstarfsverkefni með Hjördís Gréta Guðmundsdóttir
Fram koma:
-
Emilia Harðardóttir
-
Harpa Dís Hákonardóttir
-
Hjördís Gréta Guðmundsdóttir
-
Hólmfríður Sigrún Benediktsdóttir
Lesnar eru ljóðabækurnar:
-
Kvæði (1909)
-
Syngi, syngi svanir mínir (1916)
-
Segðu mjer að sunnan (1929)
Bókasafnið á Húsavík

Þótt Hulda hafi verið einna þekktust íslenskra skáldkvenna á tuttugustu öld og hennar getið í bókmenntasögunni er næsta undarlegt hversu gleymd hún er meðal samtímafólks. Verk hennar eru uppseld hjá útgefendum, oftar en ekki í geymslum á bókasöfnum og sjaldséðar á fornbókasölum. Hún steig inn í karllægan heim skálda og gaf ekkert eftir. Þó kaus hún að notast við dulnefni og kom hennar rétta nafn ekki fram fyrr en síðla á hennar skáldaferil. Hulda ruddi brautina fyrir þær listakonur sem á eftir henni komu og lagði sitt að mörkum til íslenskrar menningararfleiðar sem að réttu ætti að vera jöfnu; kvenlæg sem karllæg.
Með því að lesa upp verk hennar frá fyrsta kvæði vildum við koma orðum hennar aftur út í hringrásina, sitja við og eiga stund með þeim sem og hver annarri. Yfir skáldaferil sinn komu út eftir hana 22 verk. Á átta klukkustundum eða opnunartíma Bókasafns Húsavíkur náðum við aðeins að lesa upp úr tæpum þremur ljóðabókum, því er enn mikið verk eftir óunnið.
Hulda skáldkona (1881-1946) var frá Suður-Þingeyjarsýslu og hóf að yrkja á unga aldri, en á 19. öld var ríkt menningarlíf í sveitinni og áttu þingeyskar konur sterkan þátt í kvenréttindabaráttu þess tíma. Hulda er þekktust fyrir ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland (1944), en yfir ævina samdi hún smásögur, birti skáldrit, gaf frá sér sjö ljóðabækur, og ekki má gleyma að nefna að hún rak stórt heimili allan sinn rithöfundaferil. Fyrsta ljóðabók hennar Kvæði kom út árið 1909 og í kjölfar komu út 22 verk á 56 ára tímabili, meðal þeirra ljóðabókin Segðu mér að sunnan (1920) og Dalafólk (1936-9).
Verkin hennar eru í nýrómantískum stíl og notaði hún stílbragðið vísanir, en verkin eru tilfinningarík og sögð kvenleg. Á sýningunni er lögð áhersla á ljóð hennar og texta en Hulda kunni svo sannarlega að setja stórbrotna fegurð náttúru Íslands orð og er þekkt fyrir að hafa vakið upp forna þuluhefð Íslendinga. Hún hlaut mikið lof en einnig neikvæða gagnrýni fyrir að vera skáldkona og er hún meðal fyrstu kvenna á Íslandi sem náði viðurkenndum árangri í listum til jafns við karla.




