top of page

Bækur

2017

Innsetning með 13 afsteypum af bókum

Steypa, járnrör, tréspítur

Brautarholt, Reykjavík

Bækur (2017) er skúlptúrinnsetning sem sýnd var í yfirgefnu skrifstofuhúsnæði í Brautarholti. Yfir gluggunum inni í herberginu var sver járnstöng, notuð til að hengja upp gluggatjöld. Ég tók járnstöngina niður og setti upp í miðju rýminu og smíðaði úr henni hillu. Á hilluna lagði ég 13 afsteypur af bókum. Vegna staðsetningar hillunnar, lentu bækurnar í augnhæð við áhorfandann og skiptu rýminu í tvennt, bæði hvað varðar hæð þess og dýpt. Þar sem hillan náði alveg frá öðrum enda herbergisins yfir í hinn leit hún út eins og færiband og jafnvel hilla sem héldi áfram inn í næstu herbergi. Áhorfandinn varð að beygja sig undir hilluna til þess að komast yfir í hinn helming rýmisins. Með þessari einföldu aðgerð tók verkið yfir rýmið og stjórnaði því hvernig fólk hreyfði sig.

Bókin hefur verið mér hugleikin lengi og vann ég mitt fyrsta verk með bók sem skúlptúr í fornámi í Svíþjóð árið 2015, það var stór opin bók sem ég tók mót af og steypti í steypu, þetta var fyrsta afsteypan sem ég gerði. Verkið var virðingarvottur til Halldórs Laxness.

Í starfi mínu á almenningsbókasafni á höfuðborgarsvæðinu hef ég séð á eftir mörgum bókum í ruslið. Bækur hafa sinn líftíma eins og annað en mér þótti það einkennilegt í fyrstu að sjá bækur í ruslinu og fór ég að safna bókum þaðan. Þó ég hafi bjargað þeim úr ruslinu þá eyðilögðust þær eftir að ég lakkaði þær og hellti sílíkoni yfir. Í framhaldinu steypti ég nákvæmar eftirmyndir þeirra í upplagi.

Með því að gera sílíkonmót eftir bókunum fékk ég þau smáatriði sem ég vildi í eftirmyndirnar, tilfinningin fyrir blaðsíðunum kom fram og áferð kápunnar líka. Við þekkjum bækur í dag ekki öðruvísi en í upplagi og því fannst mér það tala til verksins að hafa það í upplagi. Steypubækurnar mínar munu endast lengur en hinar eiginlegu bækur og á annan hátt. Bókin geymir á einum stað ákveðnar upplýsingar, bókin er byggingarefni vitneskju. Því fannst mér viðeigandi að gera eftirmyndirnar í steypu, breyta þeim úr líki bókar í líki múrsteins. Verkið, Bækur (2017)  skoðar hlutverk bókarinnar í nútímasamfélagi þegar upplýsingar má í auknu mæli finna í netheimum. Með aðgerð minni öðlast bækurnar ákveðna endurnýjun lífdaga eða hreinlega snöggan endi, að vera steyptar í stein. Það má rökræða um það en ég hef kosið að kalla steypubækurnar mínar steingervinga.

bottom of page